Skilanefnd Glitnis vísar leiðina

Athyglisverðar fréttir um starf skilanefndar Glitnis berast þessa dagana.  Skilanefndin fékk  áhætturáðgjafafyrirtækið Kroll  www.kroll.home til að rannsaka starfsemi Glitnis fyrir bankahrunið.  Ekki nóg með það heldur hyggst skilanefndin fara þess á leit við Kroll að niðurstöðurnar verði gerðar opinberar í sumar. 

Í fyrra mánuði kom út vestanhafs 2200 blaðsíðna rannsóknarskýrsla um starfsemi og aðdraganda falls Lehmans bankans, sem fór í þrot 15. september 2008 og olli miklum skjálfta á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.   Í þeirri skýrslu vöktu sérstaka athygli ákveðnar bókhaldskúnstir sem fegruðu eiginfjárstöðu bankans á uppgjörstímum.

Hér á Íslandi eru farnar ýmsar leiðir við að skoða bankana.  Rannsóknarnefnd Alþingis hefur það verkefni að skoða aðdragandann að falli bankanna og ekki ljóst á þessari stundu hversu ítarlega verður fjallað um einstaka banka.  Í fréttum hefur komið fram að Fjármálaeftirlitið hefur verið að skoða einstök viðskipti hjá hinum föllnu bönkum og þá hefur sérstaklega verið minnst á Glitni og Kaupþing banka, en málefni Landsbankans hafa verið meira á hliðarlínunni. Sérstakur saksóknari rannsakar einstök mál sem til hans hefur verið beint.  Nýlega kom einnig fram að þýskur banki sé að skoða starfsemi Landsbankans, en sá aðili hefur væntanlega ekki aðgang að öllum upplýsingum og miðar þá rannsókn fyrir sínar þarfir.   

Við þessar aðstæður er hætt við að brotakenndar upplýsingar komi fram um starfsemi íslensku bankanna og hætt við að almenningur muni ekki fá heildstæða og ítarlega mynd af því sem gerðist.  Því ber að fagna framtaki skilanefndar Glitnis í þessum efnum, að fara í viðamikla rannsókn á starfsemi bankans og þá fyrirætlun að gera upplýsingarnar opinberar.  Það þarf að læra af mistökunum sem gerð voru.


Fyrningarleið í sjávarútvegi er ekki leið sáttar

Í aðdraganda kosninga opinbera frambjóðendur stefnumál sín .  Í upplýstu lýðræðisþjóðfélagi er nauðsynlegt  að kjósendur fái skýra mynd af því hvað frambjóðendur muni gera eftir kosningar,  komist þeir í ráðandi stöðu. Á opnum fundi um sjávarútvegsmál sem haldinn var í Ólafsvík í byrjun vikunnar, upplýstu  bæði Guðbjartur Hannesson og Jón Bjarnason  frambjóðendur Samfylkingar og  Vinstri Grænna þá fyrirætlun  flokka sinna að innkalla aflaheimildir á innan við 20 árum.  Hins vegar var mjög óljóst hvernig átti síðan að stýra veiðum á takmarkaðri auðlind.  Fyrir fyrirtæki og byggðir sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi  eru hér váleg tíðindi á ferð  sem eru til þess fallin að auka óvissu um framtíð þeirra og dregur úr getu og löngun fyrirtækja til að móta framtíðarsýn.   Eftir hrun bankanna og efnahagsöngþveitið sem fylgt hefur í kjölfarið er óvissan ærin fyrir.  Stöðugur rekstur sjávarútvegsins er mjög mikilvægt innlegg í endurreisn efnahagslífsins.   Getur verið að þjóðin sé ekki í tilfinningalegu jafnvægi eftir það sem á undan hefur gengið?  Við erum  í sárum eftir að „útrásarvíkingarnir„  sem voru talaðir upp í fjölmiðlum hafa skilið þjóðina eftir með vandann.  Er skynsamlegt að  rjúka til og gera breytingar breytinganna vegna og skemma meira og valda meiri upplausn?  Víða um heim er litið til íslenskrar  fiskveiðistjórnunar sem fyrirmyndar um hvernig eigi að stýra afnotum af takmarkaðri auðlind.  Í hinu virta breska vikublaði The Economist var mikil umfjöllum um sjávarútveg síðastliðin haust,  þar sem að fjallað var á mjög jákvæðan hátt um kerfið okkar.  Í vefútgáfu Financial Times í dag (22. apríl)  kemur fram að Evrópubandalagið er að íhuga upptöku framseljanlegra fiskveiðiheimilda  í  sjávarútvegsstefnu sína. Sjálfstæðisflokkurinn telur að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi hafi skilað þjóðinni miklum ávinningi og að áfram eigi að byggja á þessu kerfi.  Jafnframt leggja sjálfstæðismenn  mikla áherslu á öflugri  rannsóknir á lífríki hafsins.  Forðum okkur frá því að gera vanhugsaðar breytingar í flýti og eyðileggja það sem aðrar þjóðir horfa upp til okkar fyrir.  Höfnum fyrningarleið  Samfylkingar og Vinstri grænna í alþingiskosningunum á laugardag.

Skemmtilegir og lærdómsríkir tímar að baki

Vil þakka öllum kærlega fyrir stuðning við mig í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.   

Það hafa margir lagt mér lið með ýmsum hætti í prófkjörsbaráttunni.   Ég fann stuðning og velvilja úr mörgum áttum .  Prófkjörið  bar að með stuttum fyrirvara og tími til kynningar var stuttur sem  gerði „nýju" andlitunum erfiðara fyrir.   

Undanfarnir dagar hafa verið afar skemmtilegir og lærdómsríkir, ég hef rætt við fjölda manns um ýmis mál og treyst gömul vináttubönd.

Landsfundur er eftir hálfan mánuð,  þar má eins og svo oft áður búast við líflegri umræðu um sjávarútvegsmál  í nefndinni  sem ég hef veitt formennsku.

Þessi síða var sett upp vegna þátttöku í prófkjörinu.  Síðan mun standa áfram á netinu og verður uppfærð ef tilefni er til.


Ísland fremst í flokki

Við lifum merkilega tíma. Hagsældin sem margir héldu að væri komin til að vera hvarf í einu vettvangi og eftir sitja ýmis verkefni sem þarf að takast á við. Bæði stór og smá. Börn okkar og barnabörn munu í framtíðinni lesa um þessa atburði og læra af þeim.

Okkar bíður á hinn bóginn það krefjandi verkefni að tryggja endurreisnina. Það þarf að leggja megináherslu á aðgerðir sem tryggja það að hjól atvinnulífsins haldi áfram að snúast. Jafnframt því þarf að hlúa að heimilunum í landinu með markvissum aðgerðum. Lækkun stýrivaxta er aðgerð sem gagnast öllum bæði fyrirtækjum og heimilum og er orðin tímabær. Allir finna fyrir minnkun kaupmáttar og flestir þurfa að gera einhverjar breytingar á sínu lífsmynstri. Það þarf að forgangsraða í ríkisrekstrinum og ná niður útgjöldum eins og framast er kostur án þess að rífa niður grunnstoðir þjóðfélagsins. Atvinnuleysi hefur aukist hröðum skrefum og það verður að koma í veg fyrir að það festist í sessi. Það þarf traust til að einstaklingar leggi út í fyrirtækjarekstur og taki áhættu.

Það þarf líka að endurreisa traust og virðingu fyrir stofnunum okkar samfélags. Þetta er vel hægt, þetta er mikil vinna og það mun reyna á okkur öll. Með heiðarleika og raunhæfri bjartsýni hafa landsmenn allar forsendur til að byggja upp gott og heilbrigt samfélag. Við erum vel menntuð þjóð og erum vön opnum umræðum og höfum því sterkan og góðan grunn til að byggja á. Því megum við ekki gleyma.

Við eigum margar auðlindir: orkuna, fiskimiðin, vatnið, náttúruna, víðáttuna og fólkið. Langtímahorfur okkar eru öfundsverðar. Við höfum alla burði til að verða aftur fremst í flokki hvað lífsgæði snertir, en það mun taka blóð, svita, tár og tíma.  Við megum ekki gefast upp. 


fyrri dagur prófkjörs - Landsþing sveitarfélaga

Fyrri dagur prófkjörs hefst í dag.  Undanfarnar tvær vikur hafa verið mjög ánægjulegar.  Ég hef kynnst mörgu góðu fólki, heyrt sjónarmið sjálfstæðismanna  og kynnt áherslur mínar. Hvernig  sem úrslit verða er ég mjög sátt við þá ákvörðun að gefa kost á mér í 5. sætið í prófkjörinu.  Ég verð reynslunni ríkari.

Nú er að hefjast árlegt Landsþing Samband ísl. sveitarfélaga á Hótel Nordica.  Þar mun ég verða fram eftir degi og heyra hljóðið í sveitarstjórnarmönnum.  Það verður áhugavert að heyra hvernig sveitarfélögin  bregðast við minnkandi tekjum.  Það líður ekki á löngu þar til að ríkið þarf að taka fjármál sín fastari tökum.  Undan því verður ekki komist. 


Stefnumót við kjósendur

Það styttist í prófkjörsdaga og og margir sjálfstæðismenn komu á stefnumótið við frambjóðendur í Valhöll í dag. Þar gafst sjálfstæðismönnum tækifæri til að ræða við frambjóðendur og við frambjóðendur fengum tækifæri til að kynna okkur og okkar áherslur. Enda þótt tími fyrir hvern og einn væri stuttur gáfust tækifæri til skoðanaskipta. Mörgum spurningum var einungis hægt að svara á stuttan hátt en spurningarnar lýsa að mörgu leyti þeim atriðum sem sjálfstæðismönnum er ofarlega á hjarta.

Endurreisnin er okkur hugleikin, en breytingar á stjórnarskrá ekki. Lítill áhugi kom fram á fyrirhuguðu stjórnlagaþingi.

Hver eru forgangsmál frambjóðandans? Hver er afstaða frambjóðandans til EB? Hvað með gjaldmiðilinn? Á að fella niður hluta af skuldum heimilanna? Ætlum við að hækka skatta? Hver er afstaðan til kvótakerfisins? Það þarf að afnema verðtrygginguna! Munu sjálfstæðismenn hverfa frá áherslu á séreignastefnu í húsnæðismálum?

Að mínu mati eru forgangsmálin ljós. Það þarf að treysta undirstöður atvinnulífsins og koma til móts við þarfir heimilanna, jafnframt því sem að það þarf að endurreisa traust á stofnanir samfélagsins, á fjölmiðla og á milli okkar sjálfra. Endurnýjað traust er forsenda fyrir framtaki einstaklinga og fyrirtækja.

Hvað varðar afstöðu til EB, þá bendi ég á að mikið umrót sé í efnahagslífi heimsins og í kjölfarið megi búast við breytingum á ýmsum þáttum sem munu snerta okkur. Við þessar aðstæður er ekki álitlegt að gerast aðili að Evrópubandalaginu og fórna yfirráðum yfir auðlindum okkar. Hvað varðar gjaldmiðilinn þurfum við að fylgjast vel með þróun mála á alþjóðavettvangi en krónan verður okkar gjaldmiðill næstu misseri.


Verðum sjálf að rannsaka hrunið

Viðtalið við Evu Joly í Silfri Egils í gær var mjög upplýsandi. Eva hefur greinilega mikinn áhuga á viðfangsefni sínu og hefur þann hæfileika á að hrífa fólk með sér. Hún hefur sérstakt lag á að setja hlutina fram á einfaldan hátt þannig að auðvelt er að skilja hana.

Skilaboð hennar eru mörg, m.a. að það sé nauðsynlegt að rannsaka svona mál, annars munu þau hvíla eins og mara á þjóðinni og trufla uppbyggingu samfélagsins. Rannsóknin verður erfið og það mun reyna mjög mikið á rannsakendur, dómskerfið og síðast en ekki síst fjölmiðla.

Í netheimum er nú margir búnir að undirrita skilaboð um að fá Evu Joly til að rannsaka hrunið, þar segir "Við treystum ekki innlendum rannsóknaraðilum sem skipaðir eru af þinginu til slíkra verka."

Því miður held ég að við eigum engra kosta völ. Við Íslendingar verðum að sjá um þetta verk sjálf, en að sjálfsögðu á að leita eftir aðstoð frá erlendum sérfræðingum. Við vitum að þegar við göngum sjálf í verkin lærum við mest. Við verðum að læra af þeim mistökum sem gerð voru til þessa að geta gert ráðstafanir til að forðast þau í framtíðinni. Með því að gera þetta sjálf, getum við lagt eitthvað af mörkum við að endurreisa traust á stofnunum samfélagsins, jafnframt því sem við byggjum upp þekkingu innanlands. Það mun reyna á fjölmiðla að miðla fréttum af rannsókninni og niðurstöðum hennar. Það mun reyna á okkur öll.

Eva Joly verður með opinn fyrirlestur í Háskólanum í Reykjavík á morgun þriðjudag. Ég verð þar.

heimasíða Rannsóknarnefndar Alþingis http://www.rannsoknarnefnd.is


Endurmat og endurnýjun

Það er líf í Sjálfstæðisflokknum .  Mikil þátttaka í starfi endurreisnarnefndar flokksins sýnir ljóslega að sjálfstæðismenn eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að byggja þjóðfélagið  upp á ný.  Hjá endurreisnarnefnd fer fram þörf umræða og gagnleg sem mun ef vel gengur verða leiðarljós næstu mánuði og misseri.  Nú þegar má greina hugarfarsbreytingu og endurmat á okkar gildum og skýran vilja til meiri hófsemi  en áður.

Prófkjörið um næstu helgi , 13. og 14. mars gefur  kjósendum flokksins  í Reykjavík tækifæri til að veita nýju fólki brautargengi.  Það er allt opið og spennandi dagar framundan.   


Ein af forsendum atvinnusköpunar eru bankar sem lána viðskiptavinum sínum

Ein af forsendum atvinnusköpunar er að ná aftur upp starfhæfri viðskiptabankaþjónustu sem getur þjónað þörfum atvinnulífsins.  Á hinn bóginn kynnti rikisstjórnin í gær aðgerðaáætlun sem miðar að því að búa til fleiri störf,  þar á meðal að minnka útflutning á ferskum fiski.  Þegar málið er skoðað nánar kemur í ljós að útflutningur á ferskum fiski jókst á síðustu mánuðum ársins 2008.  Þegar gengi íslensku krónunnar féll varð útflutningurinn mun álitlegri, auk þess sem að sala fór strax fram og útgerðirnar fengu  borgað fyrir fiskinn um hæl  í erlendum gjaldeyri.   Mér er tjáð að sum sjávarútvegsfyrirtæki sem ekki eru með afurðalánasamninga, fái ekki lán hjá sínum viðskiptabönkum og geti þar af leiðandi ekki nýtt sér þennan tíma til að framleiða saltfisk.

Þegar bankaviðskiptin verða eðlileg á ný mun strax draga úr útflutningi á ferskum fiski,  enda hafa aðstæður innlendrar framleiðslu breyst mikið.   Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru í besta falli óþarfar og í versta falli verða þær til tjóns með frekari takmörkunum á starfsemi fyrirtækja. 

Einbeitum okkur að aðalatriðum.

 

 


Frambjóðandinn hlustar

Í gærkvöldi var ég á stefnumóti við kjósendur í Reykjavík .  Þar gafst mér tækifæri til að kynna mig á meðal flokkssystkina í Reykjavík. En fyrir mig var ekki síður mikilvægt að hlusta á spurningar fundarmanna sem gefa tóninn um þau málefni sem brenna á sjálfstæðismönnum þessa daga.    

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband