Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
7.4.2010 | 14:57
Skilanefnd Glitnis vísar leiðina
Athyglisverðar fréttir um starf skilanefndar Glitnis berast þessa dagana. Skilanefndin fékk áhætturáðgjafafyrirtækið Kroll www.kroll.home til að rannsaka starfsemi Glitnis fyrir bankahrunið. Ekki nóg með það heldur hyggst skilanefndin fara þess á leit við Kroll að niðurstöðurnar verði gerðar opinberar í sumar.
Í fyrra mánuði kom út vestanhafs 2200 blaðsíðna rannsóknarskýrsla um starfsemi og aðdraganda falls Lehmans bankans, sem fór í þrot 15. september 2008 og olli miklum skjálfta á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Í þeirri skýrslu vöktu sérstaka athygli ákveðnar bókhaldskúnstir sem fegruðu eiginfjárstöðu bankans á uppgjörstímum.
Hér á Íslandi eru farnar ýmsar leiðir við að skoða bankana. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur það verkefni að skoða aðdragandann að falli bankanna og ekki ljóst á þessari stundu hversu ítarlega verður fjallað um einstaka banka. Í fréttum hefur komið fram að Fjármálaeftirlitið hefur verið að skoða einstök viðskipti hjá hinum föllnu bönkum og þá hefur sérstaklega verið minnst á Glitni og Kaupþing banka, en málefni Landsbankans hafa verið meira á hliðarlínunni. Sérstakur saksóknari rannsakar einstök mál sem til hans hefur verið beint. Nýlega kom einnig fram að þýskur banki sé að skoða starfsemi Landsbankans, en sá aðili hefur væntanlega ekki aðgang að öllum upplýsingum og miðar þá rannsókn fyrir sínar þarfir.
Við þessar aðstæður er hætt við að brotakenndar upplýsingar komi fram um starfsemi íslensku bankanna og hætt við að almenningur muni ekki fá heildstæða og ítarlega mynd af því sem gerðist. Því ber að fagna framtaki skilanefndar Glitnis í þessum efnum, að fara í viðamikla rannsókn á starfsemi bankans og þá fyrirætlun að gera upplýsingarnar opinberar. Það þarf að læra af mistökunum sem gerð voru.
12.3.2009 | 00:26
Stefnumót við kjósendur
Það styttist í prófkjörsdaga og og margir sjálfstæðismenn komu á stefnumótið við frambjóðendur í Valhöll í dag. Þar gafst sjálfstæðismönnum tækifæri til að ræða við frambjóðendur og við frambjóðendur fengum tækifæri til að kynna okkur og okkar áherslur. Enda þótt tími fyrir hvern og einn væri stuttur gáfust tækifæri til skoðanaskipta. Mörgum spurningum var einungis hægt að svara á stuttan hátt en spurningarnar lýsa að mörgu leyti þeim atriðum sem sjálfstæðismönnum er ofarlega á hjarta.
Endurreisnin er okkur hugleikin, en breytingar á stjórnarskrá ekki. Lítill áhugi kom fram á fyrirhuguðu stjórnlagaþingi.
Hver eru forgangsmál frambjóðandans? Hver er afstaða frambjóðandans til EB? Hvað með gjaldmiðilinn? Á að fella niður hluta af skuldum heimilanna? Ætlum við að hækka skatta? Hver er afstaðan til kvótakerfisins? Það þarf að afnema verðtrygginguna! Munu sjálfstæðismenn hverfa frá áherslu á séreignastefnu í húsnæðismálum?
Að mínu mati eru forgangsmálin ljós. Það þarf að treysta undirstöður atvinnulífsins og koma til móts við þarfir heimilanna, jafnframt því sem að það þarf að endurreisa traust á stofnanir samfélagsins, á fjölmiðla og á milli okkar sjálfra. Endurnýjað traust er forsenda fyrir framtaki einstaklinga og fyrirtækja.
Hvað varðar afstöðu til EB, þá bendi ég á að mikið umrót sé í efnahagslífi heimsins og í kjölfarið megi búast við breytingum á ýmsum þáttum sem munu snerta okkur. Við þessar aðstæður er ekki álitlegt að gerast aðili að Evrópubandalaginu og fórna yfirráðum yfir auðlindum okkar. Hvað varðar gjaldmiðilinn þurfum við að fylgjast vel með þróun mála á alþjóðavettvangi en krónan verður okkar gjaldmiðill næstu misseri.