Ísland fremst í flokki

Við lifum merkilega tíma. Hagsældin sem margir héldu að væri komin til að vera hvarf í einu vettvangi og eftir sitja ýmis verkefni sem þarf að takast á við. Bæði stór og smá. Börn okkar og barnabörn munu í framtíðinni lesa um þessa atburði og læra af þeim.

Okkar bíður á hinn bóginn það krefjandi verkefni að tryggja endurreisnina. Það þarf að leggja megináherslu á aðgerðir sem tryggja það að hjól atvinnulífsins haldi áfram að snúast. Jafnframt því þarf að hlúa að heimilunum í landinu með markvissum aðgerðum. Lækkun stýrivaxta er aðgerð sem gagnast öllum bæði fyrirtækjum og heimilum og er orðin tímabær. Allir finna fyrir minnkun kaupmáttar og flestir þurfa að gera einhverjar breytingar á sínu lífsmynstri. Það þarf að forgangsraða í ríkisrekstrinum og ná niður útgjöldum eins og framast er kostur án þess að rífa niður grunnstoðir þjóðfélagsins. Atvinnuleysi hefur aukist hröðum skrefum og það verður að koma í veg fyrir að það festist í sessi. Það þarf traust til að einstaklingar leggi út í fyrirtækjarekstur og taki áhættu.

Það þarf líka að endurreisa traust og virðingu fyrir stofnunum okkar samfélags. Þetta er vel hægt, þetta er mikil vinna og það mun reyna á okkur öll. Með heiðarleika og raunhæfri bjartsýni hafa landsmenn allar forsendur til að byggja upp gott og heilbrigt samfélag. Við erum vel menntuð þjóð og erum vön opnum umræðum og höfum því sterkan og góðan grunn til að byggja á. Því megum við ekki gleyma.

Við eigum margar auðlindir: orkuna, fiskimiðin, vatnið, náttúruna, víðáttuna og fólkið. Langtímahorfur okkar eru öfundsverðar. Við höfum alla burði til að verða aftur fremst í flokki hvað lífsgæði snertir, en það mun taka blóð, svita, tár og tíma.  Við megum ekki gefast upp. 


Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Það væri fengur í að fá þig á þing, við þurfum á málefnalegum þingmönnum helst með faglega þekkingu. Gangi þér vel.

Sigurður Þorsteinsson, 13.3.2009 kl. 19:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband