22.4.2009 | 14:49
Fyrningarleið í sjávarútvegi er ekki leið sáttar
Í aðdraganda kosninga opinbera frambjóðendur stefnumál sín . Í upplýstu lýðræðisþjóðfélagi er nauðsynlegt að kjósendur fái skýra mynd af því hvað frambjóðendur muni gera eftir kosningar, komist þeir í ráðandi stöðu. Á opnum fundi um sjávarútvegsmál sem haldinn var í Ólafsvík í byrjun vikunnar, upplýstu bæði Guðbjartur Hannesson og Jón Bjarnason frambjóðendur Samfylkingar og Vinstri Grænna þá fyrirætlun flokka sinna að innkalla aflaheimildir á innan við 20 árum. Hins vegar var mjög óljóst hvernig átti síðan að stýra veiðum á takmarkaðri auðlind. Fyrir fyrirtæki og byggðir sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi eru hér váleg tíðindi á ferð sem eru til þess fallin að auka óvissu um framtíð þeirra og dregur úr getu og löngun fyrirtækja til að móta framtíðarsýn. Eftir hrun bankanna og efnahagsöngþveitið sem fylgt hefur í kjölfarið er óvissan ærin fyrir. Stöðugur rekstur sjávarútvegsins er mjög mikilvægt innlegg í endurreisn efnahagslífsins. Getur verið að þjóðin sé ekki í tilfinningalegu jafnvægi eftir það sem á undan hefur gengið? Við erum í sárum eftir að útrásarvíkingarnir sem voru talaðir upp í fjölmiðlum hafa skilið þjóðina eftir með vandann. Er skynsamlegt að rjúka til og gera breytingar breytinganna vegna og skemma meira og valda meiri upplausn? Víða um heim er litið til íslenskrar fiskveiðistjórnunar sem fyrirmyndar um hvernig eigi að stýra afnotum af takmarkaðri auðlind. Í hinu virta breska vikublaði The Economist var mikil umfjöllum um sjávarútveg síðastliðin haust, þar sem að fjallað var á mjög jákvæðan hátt um kerfið okkar. Í vefútgáfu Financial Times í dag (22. apríl) kemur fram að Evrópubandalagið er að íhuga upptöku framseljanlegra fiskveiðiheimilda í sjávarútvegsstefnu sína. Sjálfstæðisflokkurinn telur að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi hafi skilað þjóðinni miklum ávinningi og að áfram eigi að byggja á þessu kerfi. Jafnframt leggja sjálfstæðismenn mikla áherslu á öflugri rannsóknir á lífríki hafsins. Forðum okkur frá því að gera vanhugsaðar breytingar í flýti og eyðileggja það sem aðrar þjóðir horfa upp til okkar fyrir. Höfnum fyrningarleið Samfylkingar og Vinstri grænna í alþingiskosningunum á laugardag.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Nei það er alveg hverju orði sannara.
Enda stendur ekkert til, að leita sátta við Kvótakónga, sem skuldsett hafa fyrirtæki sín og greinina vegna brasks í öðrum greinum als óskyldum.
Mín tillaga hefur ætíð verið, að taka þetta af í einu vetvangi, líkt og það var sett á í einu vetvangi.
Þá væri jafnræðis gætt og að þá kæmi loks til framkvæmda liður 1 í lögunum um að úthlutað sé til EINS ÁRS Í SENN og að auðlindin sé þjóðareign.
Ég vorkenni ekkert þeim sem keypt hafa á yfirverði og stuuðlað að braskinu, þeim var fullkunnugt um, allar greinar Fiskveiðilagana.
Svo mikið er víst.
Bjarni Kjartansson, 22.4.2009 kl. 14:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.